Er tólf vikna LAND-nám LungA Skólans á Seyðisfirði sem mótast af þeim árstíðum sem þar ríkja hverju sinni. Hvert tímabil samanstendur af ýmsum ólíkum viðburðum og innlögnum gestakennara, íbúa samfélagsins, hugsuða, handverksfólks og fagfólks ólíkra greina. En öll tengjast þau landinu og hreyfingu þess.

LAND er rými til að kanna landið á dýptina, hvort sem það er í grunnum, forvitnilegum eða jafnvel undarlegum skilningi – hvar sem við erum, hver sem við erum. LAND er tilraun til að móta tilfinninguna sem fylgir því að tilheyra náttúrunni – landinu – og okkur sjálfum, okkur sem liði.

Í gegnum fjölbreytt námskeið og kynni við fólk innan skólans og í nærsamfélaginu gerir hópurinn tilraunir til þess að læra gamla siði sem og skapa nýja, kynnast menningu staðarins, bæði gamalli og nýrri. Náttúrunni er gefið til baka það sem tekið er og ferðast er bæði um ytra landslagið og hið innra. Við lesum, hvíslum, skrifum, syndum í sjónum eða svömlum um hugann. Við drögum innblástur frá landinu, vinnum með því, nærum það og það okkur. Við virðum það, ferðumst um, upp hóla og niður hæðir. Við eigum samskipti við landið, lærum af því og lifum fallegu samlífi með því.

Hver önn samanstendur af hópi þátttakenda sem saman ferðast um, læra af landinu og kynnast því hvað nærumhverfi staðarins Seyðisfjarðar hefur upp á að bjóða. Hópurinn dvelur í Seyðisfirði og nágrenni þess, býr saman, borðar saman, upplifir saman en líka í sitthvoru lagi, deilir reynslu og býr til reynslu auk þess sem hann kynnist því hvað það er að búa í því litla samfélagi sem Seyðisfjörður er og þeim töfrum sem þar leynast.

Við hvetjum allt áhugafólk um land til að sækja um sama hvaða merkingu það leggur í hugtakið. Hvort sem þátttakendur hafa reynslu eða ekki af þeim margvíslegu viðfangsefnum sem LAND hverfist um.

Í umsókninni leitumst við eftir áhuga umsækjenda á náttúrunni og forvitni þeirra gagnvart tengingu manns og náttúru. Að umsækjendur séu opnir fyrir áskorunum, líkamlegum sem og andlegum og tilbúnir í hið óvænta þegar kemur að því að kanna bilið milli manns, náttúru og lands í víðum og þröngum skilningi.